Samstarfsverðlaun Microsoft á Íslandi voru afhent föstudaginn 11. janúar síðastliðinn þar sem veitt voru verðlaun í fjórum flokkum þetta árið. Auk þess voru veitt sérstök verðlaun dómnefndar ásamt því að samstarfsaðili ársins var valinn.
Tilnefning til samstarfsverðlauna
Við erum afar stolt af því að Promennt fékk tilnefningu í flokknum Efling starfsfólks (Empowering Employees) fyrir verkefnið „Fræðsla sem mikilvægur hluti innleiðingar Office 365 hjá Stjórnarráðinu". En í þessum flokki er horft til þess hvernig réttu verkfærin eru sett í hendur starfsmanna og þeim kennt að nota þessi verkfæri til að ýta undir samvinnu, hámarka skilvirkni og gera starfsfólki kleyft að vinna vinnuna sína hraðar og betur.
Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við Stjórnarráðsskólann og Rekstrarfélag Stjórnarráðsins ásamt því að samstarfsaðilar Promennt, Clarito og Spektra, komu að framkvæmdinni. Það er skemmst frá því að segja að öflug samvinna þessa teymis gerði það að verkum að þessum frábæra árangri var náð.
Promennt hlaut Hvatningarverðlaun dómnefndar
Svo erum við hreinlega í skýjunum yfir því að dómnefnd sá sérstaka ástæðu til að verðlauna verkefnið okkar aukalega og veitti Promennt Hvatningarverðlaun dómnefndar sem voru rökstudd á eftirfarandi hátt:
„Það er einstaklega ánægjulegt að sjá rótgrónar ríkisstofnanir taka upp markvissa notkun á hugbúnaði og fjárfesting þeirra í kennslu starfsmanna er enn ánægjulegri enda kemur betri þekking til með að skila bættum afköstum og betri nýtingu á tækni. Þetta verkefni er stórt og umfangsmikið og á svo sannarlega skilið sérstök hvatningarverðlaun dómnefndar.“ Dómnefnd samstarfsverðlauna Microsoft á Íslandi 2019.
Á myndinni eru frá vinstri: Heimir Fannar Gunnlaugsson framkv.stjóri Microsoft á Íslandi, Ingvar Páll Ingason ráðgjafi hjá RFS, Árni Haukur Árnason Clarito, Eva Sigríður Ólafsdóttir stjórnandi Stjórnarráðsskólans, John V. Yeoman tæknistjóri Promennt, Inga Steinunn Björgvinsdóttir markaðsstjóri Promennt, Þór Haraldsson frkv.stj. Spektra, Kristinn Helgi Sveinsson þjónustustjóri miðlara og útstöðva RFS.
Mikil ánægja viðskiptavinarins
Eva Sigríður Ólafsdóttir, stjórnandi Stjórnarráðsskólans var sérstaklega ánægð með samstarfið:
„Stjórnarráðsskólinn hóf samstarf við Promennt 2018 í tengslum við innleiðingu Office 365. Haldin voru bæði námskeið og kynningar fyrir starfsfólkið. Samstarfið hefur gengið framar vonum, allir sem að verkefninu komu lögðu sig fram. Mikil ánægja var með námskeiðin og gladdist starfsfólk yfir að fá strax góða kennslu í hinum ýmsu forritum sem gerði að verkum að þessi nýju verkfæri nýttust fólki mun fyrr en ella.“
Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins tekur í sama streng:
"Mikil ánægja er í fjármálaráðuneytinu með þessa innleiðingu og breytingarnar sem hún leiddi af sér, en með því að fá góða fræðslu í upphafi innleiðingar gafst starfsfólki strax tækifæri til að tileinka sér betri vinnubrögð með nýjum verkfærum. Skapast hefur góður grundvöllur til auðveldara og um leið árangursríkara samstarfs innan ráðuneytis, milli ráðuneyta og ekki síst við utanaðkomandi samstarfsaðila með Office365, m.a. með Teams. Þar að auki sjáum við fram á að geta dregið úr ferðalögum vegna funda og nýtt okkur í auknum mæli fjarfundi með Skype for Business."
Samstarfsaðili ársins
Að þessu sinni var það Advania sem hlaut titilinn Samstarfsaðili ársins hjá Microsoft á Íslandi. Við óskum vinum okkar hjá Advania að sjálfsögðu innilega til hamingju með verðskuldaða nafnbót.