Promennt og NTV hafa nú sameinast en með þessari sameiningu er markmiðið að auka við núverandi framboð á starfsmiðuðu námi og námskeiðum fyrir einstaklinga og fyrirtæki ásamt því að samþætta námsleiðir sem hafa nú þegar verið í boði hjá sitthvorum skólanum.
Bæði Promennt og NTV hafa sérstöðu í að bjóða upp á diplómanám fyrir fullorðna sem skapar starfstækifæri á nýjum vettvangi á aðeins 6 til 18 mánuðum og hafa starfað í þeim geira í um og yfir aldarfjórðung. Skólarnir tveir eiga margt sameiginlegt í námsframboði en þar sem Promennt hefur haft ákveðna sérstöðu í tækninámskeiðum, sem alhliða prófamiðstöð og verið eina vottaða Microsoft fræðslufyrirtæki landsins hefur NTV einblínt meira á prófa- og frammistöðudrifnar námsbrautir og er einnig eini einkarekni skóli landsins sem hefur boðið upp á hagnýtt nám í forritun og á sviði gangatækni og gagnagreiningar.
Saman munu því námsleiðir vera enn sterkari og spanna allt frá hönnun til tækni yfir í rekstur, stjórnun og sérfræðinám. Einnig hafa báðir skólar starfað eftir EQM gæðastaðli og eru viðurkenndir fræðsluaðilar af Menntamálastofnun í samstarfi við flesta fræðslu- og símenntunaraðila á Íslandi í fullorðinsfræðslu.
Öll skráning í komandi námsleiðir fer fram í gegnum heimasíðu NTV og verða námskeiðin kennd í þeirra húsakynnum en áfram verður boðið upp á fjarnám, rafræn námskeið og bætist nú við ný námsleið sem NTV hefur þróað sem kallast "Fjarnám í frelsi" en þar stjórnar hver nemandi sínum hraða og hefur aðgang að umsjónarmönnum námskeiðsins varðandi persónulega þjónustu og aðstoð.
Ef einhverjar spurningar vakna varðandi námsframboð, fyrirkomulag eða annað þá er hægt að hafa samband í gegnum netföngin promennt@promennt.is og skoli@ntv.is